Skemmtiferðaskipavertíð Faxaflóahafna 2023 hófst þann 28. mars með komu skipsins Ambience, sem lagðist að Skarfabakka og farþegar nutu þar stórbættrar aðstöðu. Vertíðinni lauk þann 14. október þegar Pacific World sigldi úr höfn. Í heildina komu 99 skemmtiferðaskip til Reykjavíkur og  Akraness  í alls 261 skipakomu. Heildar farþegatölur skemmtiferðaskipanna á árinu voru 306.311 farþegar og af þeim voru 148.615 skiptifarþegar. Skiptifarþegar eru þeir farþegar sem hefja eða enda ferð sína í höfn og fljúga síðan til eða frá landinu í gegnum Keflavíkurflugvöll. Á árinu 2022 voru 51.349 skiptifarþegar sem fóru um hafnirnar í Reykjavík.  Því er ljóst að það varð þreföldun á fjölda skiptifarþega árið 2023. Þessa miklu fjölgun skiptifarþega má rekja til breytinga á markaði í kjölfar heimsfaraldurs,  stríðsátaka í Evrópu og ekki síst vegna öflugra flugsamgangna til og frá Keflavíkurflugvelli. Toppnum virðist hins vegar vera náð þar sem á árinu 2024 eru áætlaðar 263 skipakomur, með 308.584 farþega og þar af 159.795 skiptifarþega. Hlutfallsaukning skiptifarþega eru mikilvægar þar sem farþegaskipti hafa í för með sér umtalsverða virðisaukningu fyrir höfnina og atvinnulífið í heild.

Environmental Port Index – EPI

Faxaflóahafnir tóku upp umhverfiseinkunnarkerfi fyrir skemmtiferðaskip að norskri fyrirmynd, Environmental Port Index (EPI), með ívilnun eða álögum hafnargjalda eftir umhverfishegðun skipa á hafnarsvæði.

EPI á upptök sín í Noregi þar sem höfnin í Björgvin, Det Norske Veritas (DNV), ásamt helstu skemmtiferðaskipahöfnum Noregs tóku sig saman og þróuðu nýtt umhverfiseinkunnarkerfi sem tekur sérstaklega á umhverfishegðun skipa á hafnarsvæði. Faxaflóahafnir voru fyrstu hafnir utan Noregs sem tóku upp EPI einkunnarkerfið og tengdu það við sína gjaldskrá fyrir árið 2023.

Meðaltalseinkunn þeirra skipa sem komu 2023 til Faxaflóahafna var 41,1 stig af 100 mögulegum, sem er aðeins örlítið lægri en meðaltalseinkunn í Noregi sem var 45,7 stig. Af því má áætla að umhverfiseinkunarkerfið EPI hafi tryggt að Faxaflóahafnir væru ekki eftirbátar hafna í Noregi þegar kemur að umhverfisframmistöðu skemmtiferðaskipa í höfn.

Bókunarhugbúnaðurinn DOKK

Nýr bókunarhugbúnaður fyrir skemmtiferðaskip var tekinn í notkun á árinu, fyrir allar skemmtiferðaskipahafnir á Íslandi. DOKK hugbúnaðurinn hefur auðveldað og straumlínulagað alla umsýslu í móttöku skemmtiferðaskipa til hagsbóta fyrir hafnir, skipaumboðsmenn og skipafélög. Samhliða býður hugbúnaðurinn upp á auknar upplýsingar til hagsbóta fyrir almenning og atvinnulíf. Uppfærðar upplýsingar um skipakomur í sérhverja höfn allt að þremur árum fram í tímann eru þannig  aðgengilegar öllum.

Komur skemmtiferðaskipa eru skipulagðar allt að þremur árum fram í tímann, því er DOKK bókunarhugbúnaðurinn vel til þess fallinn að álagsdreifa skipakomum svo að innviðir nýtist sem best. Faxaflóahafnir eru að þróa bestunarlíkan í hugbúnaðinum sem mun aðstoða við að fækka álagstoppum og leitast við að dreifa skipakomum yfir alla daga tímabilsins. Stefnt er að því að bestunarlíkanið muni sýna árangur í þá átt strax á næsta ári.

FaxaportsFaxaports linkedin