Leiðangursskipið Maud frá norska skipafélaginu Hurtigruten er fyrsta skemmtiferðaskipið til að landtengjast rafmagni í Gömlu höfninni í Reykjavík þriðjudaginn 19. september. Sigurður Ingi Jóhannsson  innviðaráðherra vígði í tilefni þess nýja landtengingu Faxaflóahafna við Faxagarð.

Landtenging á Faxagarði er enn einn áfangi í þeirri vegferð að landtengja þau skip er leggjast að bryggju í Faxaflóahöfnum. Margt hefur áunnist, nú þegar eru fiskiskip landtengd þegar þau liggja við bryggju og landtenging stærstu gámaskipa Eimskips við Sundabakka var tekin í notkun í lok árs 2022. Landtenging stærstu skemmtiferðaskipa á Skarfabakka í Sundahöfn er á þriggja ára áætlun.

„Þessi áfangi í röð landtengingarverkefna Faxaflóahafna er sérlega ánægjulegur. Í fyrsta skipti tengjum við skemmtiferðaskip við landrafmagn í okkar höfnum og kemur sá áfangi í framhaldi af landtengingu stærstu flutningaskipanna á síðasta ári. Þó hér sé aðeins um minnstu gerð skemmtiferðaskipa að ræða þá er þetta vísbending um það sem koma skal með allar stærðir skipa í framtíðinni,“ segir Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri Faxaflóahafna.

Landtengingarbúnaðurinn getur afhent rafmagn til skipa með 440V eða 690V spennu og á tíðninni 50 eða 60Hz. Fram að þessu hefur einungis verið hægt að bjóða landtengingar með 400V spennu og á tíðninni 50HZ. Hámarksaflgeta tengingar er allt að 1,5MVA á 690V. Búnaðurinn er samkvæmt staðlinum IEC PAS 80005-3 og er afhentur af fyrirtækinu PSW Power & Automation AS í Bergen. Með landtengingunni opnast einnig möguleiki á losunarlausum heimsóknum skemmtiferðaskipa í Faxaflóa þegar um tvinnskip (e. Hybrid) er að ræða.

„Bætt loftgæði í borginni eru eitt mikilvægasta verkefni samfélagsins. Hvort sem loftmengun stafi frá bílaumferð eða stórum dísilvélum í skipum er nauðsynlegt að leita allra leiða við að draga úr henni hratt og örugglega. Öflugar landtengingar skipa í höfnum Reykjavíkur er mikilvægur liður í því verkefni og vil ég nota tækifærið til að óska starfsfólki Faxaflóahafna og Veitna til hamingju með þennan áfanga. Borgin hefur vaxið utan um Gömlu höfnina á liðnum áratugum og því er þessi landtenging sérlega ánægjuleg fyrir okkur öll,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í kveðju til Faxaflóahafna.

„Það er mikilvægt að ferðaþjónustulandið Ísland byggi upp græna innviði til að þjónusta ferðamenn. Það skref sem Faxaflóahafnir stíga með fyrstu landtengingu fyrir skemmtiferðaskip við Faxagarð er stórt. Vonandi sjáum við fleiri hafnir feta í fótspor Faxaflóahafna og styðja þannig við grænni siglingar skemmtiferðaskipa í kringum landið,“ segir Sigurður Ingi.

  • Hurtigruten Expeditions fyrsta skemmtiferðaskipið, Maud, með landtengingu rafmagns í Reykjavík en öll nema eitt skip Hurtigruten geta tengst landtengingu
  • Aðeins 2% hafna á heimsvísu með landtengingar en tvær hafnir þegar komnar með landtengingu á Íslandi samkvæmt upplýsingum frá Cruise Lines International Association
  • Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður stjórnar Faxaflóahafna, bauð gesti velkomna og Gunnar Tryggvason, Hafnarstjóri Faxaflóahafna, kynnti landtenginguna áður en Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra klippti formlega á borða í tilefni landtengingarinnar

 

FaxaportsFaxaports linkedin