Plattaskipti við skip sem eru að koma í fyrsta sinn til okkar er gömul og góð hefð sem við hjá Faxaflóahöfnum höldum í heiðri. Að þessu sinni var athöfnin um borð í skemmtiferðaskipinu Sky Princess sérlega ánægjuleg, þar sem hún markaði þau tímamót að við værum komin á sama stað og við vorum fyrir heimsfaraldur varðandi komur skemmtiferðaskipa. Samanburður við sama tímabil ársins 2019, sem jafnframt var metár í komu skemmtiferðaskipa í hafnir Faxaflóahafna, sýnir að við erum búin að endurheimta sama fjölda. Jafnframt bendir bókunarstaða ársins 2022 til þess að tæplega 200 skemmtiferðaskip munu koma í Faxaflóahafnir á árinu, sem var sá fjöldi sem kom árið 2019. Samhliða bendir bókunarstaða ársins 2023 til þess að það mun vera um 20% vöxtur í komum skemmtiferðaskipa í Faxaflóahafnir. Af þessu má áætla að áhrifa heimsfaraldurs gætir ekki lengur í þessum efnum og við getum horft til framtíðar á ný.

Á myndinni eru Brian Whelan aðstoðarskiptjóri Sky Princess, Gísli Jóhann Hallsson yfirhafnsögumaður og Sigurður Jökull Ólafsson markaðsstjóri Faxaflóahafna.

Horft yfir Skarfabakka þar sem liggja að bryggju hvorki meira né minna en þrjú skemmtiferðaskip. Þau eru Sky Princess (fremst), Silver Whisper og AIDA Bella.

FaxaportsFaxaports linkedin