Sundahöfn er stærsta innflutningshöfn landsins. Tvö stærstu skipafélög landsins, Eimskip og Samskip, reka þar stór farmsvæði, vöruhús auk annarra innviða til að mæta þörfum íslensks atvinnulífs.
Sundahafnarsvæðið byggir að mestu leiti á landfyllingum og er hluti þeirra enn sem komið er ófrágengið land, sem Faxaflóahafnir vinna nú að skipulagningu á.

Áhrif Sundabrautar á skipulag og starfsemi í Sundahöfn 
Samgönguyfirvöld og Reykjavíkurborg skoða nú með meiri þunga en áður brúarlausn Sundabrautar.  Felur sú lausn í sér að brú yrði lögð yfir Kleppsvík í framhaldi af Holtavegi.
Sú lega hefði í för með sér röskun á innsta hluta Sundahafnar, s.k. Vogabakka, þar sem athafnasvæði Samskipa er í dag. Jafnframt fer þar fram innflutningur ýmissa heilfarma og löndun sjávarafla.
Með þessari legu Sundabrautar yrði sú þjónusta sem veitt er í Sundahöfn í dag og á næstu áratugum að rúmast á smærra svæði en áður var ráðgert.
Til að undirbúa viðbrögð Faxaflóahafna í kjölfarið á mögulegri ákvörðun samgönguyfirvalda og borgar, var alþjóðlega siglingaráðgjafafyrirtækið Drewry Consulting fengið til að greina skipulagsvalkosti í Sundahöfn og gera tillögu að breyttu skipulagi, sem gerði ráð fyrir færslu meginhluta þeirrar hafnarstarfsemi sem lenti innan brúar.
Mögulegar breytingar á skipulagi svæðisins varðar að mestu stóru skipafélögin tvö, þ.e. Samskip sem áður var nefnt og Eimskip, en starfsemi þess er í dag alfarið utan umrædda legu brúar. Bæði félögin hafa farmsvæði á langtímaleigu frá Faxaflóahöfnum, eiga og reka vöruhús á svæðinu sem og búnað til losunar og lestunar gámaskipa.
Var Drewry Consulting jafnframt falið að hafa samráð við helstu hagaðila á svæðinu sem og önnur skipafélög sem stunda reglulega fraktflutninga til og frá Íslandi.

Tillögur Drewry Consulting 
Í skýrslu Drewry Consulting eru dregnar upp fimm sviðsmyndir skipulags, sem fela í sér mismikla breytingu frá núverandi fyrirkomulagi.

Skýrslu Drewry Consulting má finna hér

Sú sviðsmynd (Alternative 1) sem felur í sér minnstu breytinguna, felur í sér flutning á starfsemi Samskipa stystu leið út fyrir mögulega Sundabrautarbrú, nýtt farmsvæði á óúthlutuðu svæði þar og lengingu á núverandi Vogabakka til norðurs. Áfram verða farmsvæðin rekin af hvoru skipafélaginu fyrir sig með aðskilin farmsvæði, búnað og hafnarbakka.

Sú sviðsmynd (Alternative 3) sem felur í sér mestu breytingarnar, ráðgerir að sameina farmsvæði skipafélagana og samnýta allan búnað til losunar og lestunar skipa sem yrði þá í eigu óháðs rekstraraðila.

Það er mat Drewry Consulting að síðarnefnda sviðsmyndin sé ákjósanlegust, þar sem hún leiðir til mestrar hagræðingar og auðveldar aðkomu nýrra skipafélaga að Sundahöfn.  Jafnframt telur Drewry Consulting að þetta fyrirkomulag sé algengast í höfnum að svipaðri stærð og hafnir Faxaflóahafna í nágrannalöndunum.

Viðbrögð Faxaflóahafna 
Gunnar Tryggvason starfandi hafnarstjóri fagnar því að ráðist hafi verið í þessa umfangsmiklu greiningar- og ráðgjafavinnu, þar sem Faxaflóahafnir gætu þurft að bregðast  hratt við m.t.t. ákvarðana skipulagsyfirvalda varðandi legu Sundabrautar.  Hann tekur þó fram að miðað við núverandi stöðu er ekki aðkallandi þörf til aðgerða.
Í tillögum Drewry Consulting felast þó nokkrar fréttir, þar sem sú sviðsmynd sem skorar hæst í mati Drewry kallar á töluverðar breytingar, ekki einungis m.t.t. skipulags heldur einnig rekstrarfyrirkomulags á hafnarbökkum og jafnvel farmsvæðum.
Faxaflóahafnir leggja áherslu á að hafa gott samráð við alla hagaðila á hafnarsvæðinu sér í lagi skipafélögin tvö, Eimskip og Samskip, sem eru með mikla starfsemi í Sundahöfn og hafa fjárfest í uppbyggingu farmsvæðanna.

FaxaportsFaxaports linkedin