Fjörusteinninn, umhverfisverðlaun Faxaflóahafna hafa verið veitt frá árinu 2007 og verða nú veitt í 14 skipti. Venjan hefur verið að veita verðlaunin fyrirtækjum sem starfa á hafnarsvæðunum og sýnt hafa fram á framsækni í umhverfismálum og verið til fyrirmyndar hvað varðar frágang á lóðum og snyrtilegt umhverfi.

Eftirfarandi aðilar hafa hlotið Fjörusteininn frá upphafi:

2007 Eimskipafélag Íslands
2008 Nathan og Olsen hf
2009 Egilsson ehf
2010 Jón Ásbjörnsson og Fiskkaup ehf
2011 Lýsi hf
2012 Samskip hf
2013 Elding – hvalaskoðun ehf
2014 HB Grandi hf
2015 Íslenski Sjávarklasinn ehf
2016 Special Tours
2017 Landhelgisgæsla Íslands
2018 Hafið öndvegissetur
2019 Hafrannsóknastofnun Íslands

Á aðalfundi Faxaflóahafna sf. var að vanda veitt umhverfisviðurkenning og í ár hlýtur Harpa fjörustein Faxaflóahafna.

Byggingin er einstakt mannvirki en aðalhönnuðir Hörpu eru Henning Larsen Arkitektar í Kaupmannahöfn og Batteríið Arkitektar. Ólafur Elíasson hannaði glerhjúpinn sem umlykur Hörpu. Eitt af megineinkennum hans er tilvísun í ýmis fyrirbæri úr náttúrunni og einstök birtuskilyrði landsins. Hönnun bæði hússins og umhverfis þess hafa fengið ýmis verðlaun en þar ber helst að nefna Mies van der Rohe verðlaunin árið 2013. Harpa hefur sett fallegan svip á Gömlu höfninna og starfsemin haft jákvæð áhrif á umhverfi sitt þar sem menningarviðburðir og ráðstefnur hafa varpað ljósi á og aukið aðdráttarafl Gömlu hafnarinnar.

Harpa er með metnaðarfulla græna stefnu, en m.a. er allt sorp tekið til endurvinnslu og öll hreinsiefni eru vottuð. Meðferð matvæla og drykkja er sérstaklega eftirtektarverð, en allar umframbirgðir af matvælum fara til góðgerðasamtaka, vatn er ekki borið fram í plastflöskum og veisluþjónustan skiptir aðeins við birgja sem stunda vistvæna viðskiptahætti. Sett hafa verið fram markmið til ársins 2030 um að kolefnisjafna losun allra gróðurhúsalofttegunda sem ekki er hægt að komast hjá auk þess að auka hlutdeild vistvænna ferðamáta í 30% og að hlutfall endurvinnanlegs úrgangs verði 75%.

Auk þess að vera viðurkenning á góðri frammistöðu í umhverfismálum er Fjörusteinninn jafnframt hugsaður sem hvatning fyrir þá sem hann hljóta til áframhaldandi góðra verka og er von Faxaflóahafna að þessi viðurkenning verði hvatning fyrir Hörpu um áframhaldandi starf á þessu mikilvæga sviði.

Kristín Soffía Jónsdóttir stjórnarformaður Faxaflóahafna afhendir umhverfisverðlaun Faxaflóahafna til Svanhildar Konráðsdóttur forstjóra Hörpu.

Svanhildur Konráðsdóttirr forstjóri Hörpu þakkar Faxaflóahöfnum fyrir viðkenninguna.

Kristín Soffía Jónsdóttir stjórnarformaður Faxaflóahafna, Gísli Gíslason hafnarstjóri Faxaflóahafna og Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu.

FaxaportsFaxaports linkedin