Samningur vegna byggingu á nýrri fjölnota farþegamiðstöð Faxaflóahafna á Skarfabakka var undirritaður í Hafnarhúsinu síðastliðinn föstudag. Eru það ÍAV og samstarfsaðilar, verkfræðistofan VSÓ og BROKKR STUDIO arkitektar, sem sjá um hönnun og byggingu miðstöðvarinnar.

Undirbúningur verks er þegar hafinn og verklegar framkvæmdir hefjast í marsmánuði. Áætlað er að farþegamiðstöðin verði fullkláruð fyrir vertíð skemmtiferðaskipa vorið 2026.

Farþegamiðstöðin verður 5.700 fm og mun gerbylta allri aðstöðu og þjónustu við farþega skemmtiferðaskipa sem koma á Skarfabakka. Aðstöðunni er ætlað að þjóna farþegum skemmtiferðaskipa hvort sem þeir hefja eða ljúka sinni ferð á Íslandi sem og þeim sem eingöngu eru í dagsheimsókn.

Hönnun hússins gerir ráð fyrir að hægt sé að nýta það undir viðburði af ýmsu tagi á þeim tíma ársins þegar skemmtiferðaskip eru ekki á ferðinni til landsins.

 

Mynd: Frá undirritun samnings, f.v. Gunnar Tryggvason hafnarstjóri Faxaflóahafna og Þóroddur Ottesen Arnarson forstjóri ÍAV

FaxaportsFaxaports linkedin