Á fundi hafnarstjórnar Faxaflóahafna sf. í dag var samþykkt að efna til opinnar hugmyndasamkeppni um framtíðarsýn fyrir hafnarsvæði Gömlu hafnarinnar í Reykjavík. Tillagan, ásamt bókunum sem gerðar voru í tilefni málsins er eftirfarandi:

Hafnarstjórn telur mjög mikilvægt að þróun Gömlu hafnarinnar styðjist við heildarskipulag og framtíðarsýn sem unnt verði að vinna eftir á komandi árum með skipulögðum hætti. Því samþykkir hafnarstjórn að efnt verði til opinnar hugmyndasamkeppni um þróun og framtíð skipulagssvæðis Gömlu hafnarinnar frá D-reit og Ingólfsgarði í austri að Eyjargarði í vestri. Hafnarstjórn felur formanni hafnarstjórnar og hafnarstjóra að vinna að nauðsynlegum undirbúningi málsins í samvinnu við skipulagssvið Reykjavíkurborgar.“
Tillagan samþykkt, en hjá sitja ÓB og BV.
 
Óskar Bergsson og Björk Vilhelmsdóttir bóka eftirfarandi:
„Tillaga formanns um opna hönnunarsamkeppni um gamla hafnarsvæðið ber að með engum fyrirvara og óljóst hvað meirihluti stjórnar hyggst fyrir með þessari tillögugerð. Spurningar vakna hvort gildandi skipulag við Mýrargötu sé í uppnámi við þessa ákvörðun svo og þær framkvæmdir sem þar hafa verið unnar samkvæmt gildandi skipulagi.“
 
Bókun fulltrúa meirihluta stjórnar:
„Yfirbragð og nýting gömlu hafnarinnar er að taka stórfelldum breytingum. Mikilvægt er á þessum tímapunkti að mótuð sé heildarsýn varðandi skipulag svæðisins. Það varðar ekki aðeins ásýnd gömlu hafnarinnar heldur íbúa- og atvinnuþróun borgarinnar allrar þar sem horft verður til atvinnustarfsemi á hafnarsvæðinu, framtíðarnota, íbúðarbyggðar og samgangna. Skipulagsfulltrúi Faxaflóahafna gerði á fundi stjórnar góða grein fyrir því að skipulag hafnarsvæða í miðborg lítur öðrum lögmálum en iðnaðarhafna.“
 
Formaður bauð frestun málsins til næsta fundar en það var ekki þegið. Gerð var hins vegar fullnægjandi grein fyrir málinu á fundinum.
 
Mýrargötuskipulagið er ekki hluti þessa máls og villandi að blanda því saman.
 
 
 
FaxaportsFaxaports linkedin