Stefnur og vottanir

Faxaflóahafnir sf. eru hafnarfyrirtæki og landeigandi sem leggur áherslu á að vera

leiðandi í gæðamálum og vinna að stöðugum umbótum.


Faxaflóahafnir sf. eru hafnarfyrirtæki og landeigandi sem leggur áherslu á að vera leiðandi í umhverfismálum og vinna að stöðugum umbótum, m.a. með því að auka umhverfisvitund starfsmanna, viðskiptavina og þjónustuaðila sinna. Starfsemi fyrirtækja og einstaklinga á hafnarsvæðum Faxaflóahafna sf. veitir ákveðin réttindi, en þeim réttindum fylgja einnig skyldur, þar á meðal á sviði umhverfismála, sem mikilvægt er að virða.

 

 

Fyrirtækið á og rekur atvinnuhafnir og athafnasvæði og leggur áherslu á að skipulag og starfsemi samræmist skipulagsáætlunum og stefnu eigenda í umhverfismálum.

Faxaflóahafnir hafa einsett sér að innleiða umhverfisstjórnun fyrir rekstur sinn með það að markmiði að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum frá starfseminni. Í því felst að þekkja, vakta, fylgjast með þróun og stýra þýðingarmiklum umhverfisþáttum í rekstri fyrirtækisins og kynna árangur og stöðu þeirra. Sett verður á fót vottað umhverfisstjórnunarkerfi í samræmi við staðalinn ISO 14001. Með þessu mun Faxaflóahafnir bæta stöðugt frammistöðu sína í umhverfismálum.

Í umhverfisstefnu Faxaflóahafna felst að uppfylla viðeigandi kröfur laga og reglugerða sem og framfylgja leiðsögn stjórnvalda og eigenda í umhverfismálum.

Áhersluatriðin í stefnu Faxaflóahafna sf. eru eftirfarandi:

1. Að leggja sitt af mörkum til loftslagsmála

Loftslagsmál eru ofarlega á baugi og kallað er eftir viðbrögðum til þess að draga úr loftmengun. Í þeim efnum líta Faxaflóahafnir sf. svo á að fyrirtækið verði annars vegar að leggja sitt að mörkum með beinum hætti og hins vegar að skapa aðstæður til þess að viðskiptavinir hafnarinnar geti náð jákvæðum markmiðum. Stefna Faxaflóahafna sf. er:

Að draga sem kostur er úr og gæta hagkvæmni í notkun eldsneytis og þar með losun frá eigin starfsemi
Að beita sér við að hafa áhrif á og eiga samstarf við eigendur og rekstraraðila til að draga úr umhverfisáhrifum frá þeim.
Að vinna að uppbyggingu innviða á hafnarbökkum og stuðla þannig að orkuskiptum viðskiptavina hafnarinnar
Að vinna að kolefnisjöfnun með skógrækt, fyrst á eigin landi

2. Að draga úr áhrifum og hindra skaðlegar afleiðingar mengunar

Sjór á hafnarsvæðum er undir álagi frá skipum og starfsemi á landi og unnið er að mengunarvörnum með áherslu á sjávargæði. Aflað er upplýsinga og þekkingar um mögulega mengun sem tengja má hafnarstarfseminni, þ.á.m. ljós- og hljóðvist; mengun í lofti, s.s. svifryk, sót eða lykt; mengun lands og mengun sjávar. Brugðist er við niðurstöðum. Stefna Faxaflóahafna sf. er:

Að vinna að því að draga úr áhrifum á nágranna og samfélagið umhverfis hafnirnar.
Að gera ráðstafanir til taka á þeim þáttum sem Faxaflóahafnir hafa beina stjórn á og finna það framlag sem Faxaflóhafnir geta lagt til ástands sjávar á hafnarsvæðum fyrirtækisins og nágrenni þess.
Að beita sér af einurð fyrir því að viðskiptavinir og samstarfssaðilar fylgir kröfum um mengunarvarnir.
Að greina mögulegar hættur á mengunarslysum, verjast þeim eftir megni, viðhalda viðbúnaði og viðbragðsáætlunum til að halda afleiðingum og óhöppum í lágmarki. Læra af eigin reynslu og annarra.

3. Að minnka úrgang og setja í réttan farveg það sem til fellur

Haldið er saman upplýsingum um úrgang sem fellur til og dregið úr umhverfisáhrifum hans svo sem loftslagsáhrifum. Stefna Faxaflóahafna sf. er:

Að leita aðferða og vinnubragða sem ekki leiða til úrgangs, flokka það sem til fellur, þar sem endurnýtanlegu og endurvinnanlegu efni er beint í farveg á hagkvæman hátt
Að bæta nýtingu þar sem séð er til þess að ekkert fari til spillis svo sem með virkum efnisbúskap.
Að viðhafa örugga spilliefnameðferð.
Að sjá til þess að farvegir séu fyrir hendi til að taka við úrgangi frá notendum hafnarinnar og gestum og skila honum í samræmi við lög og reglur.

4. Að skipulag skili hagrænum ávinningi og virði umhverfissjónarmið

Höfn er undirstaða byggðar, atvinnu- og efnahagslífs sem skilar samfélaginu ávinningi með hagkvæmni í flutningum og minni umhverfisáhrifum. Flutningamiðstöð í næsta nágrenni megin markaða styttir flutningaleiðir og dregur úr loftslagsáhrifum. Stefna Faxaflóahafna er:

Að vinna skipulag með hliðsjón af ávinningi fyrir samfélagið og fyrirtækið, bæði hagrænum og umhverfislegum.
Að hafa í huga áhrif á byggð í nágrenninu og sambýli hafnar við nágranna. Ásýnd mannvirkja og frágangur umhverfis sé eins góður og kostur er. Vinna áfram að því að aðgangur og tækifæri séu til útivistar.
Að nýta land sem best og bjóða möguleika á atvinnustarfsemi á landi hafnanna, m.a. fyrir matvælastarfsemi, útgerð, iðnaðarstarfsemi og ferðaþjónustu þar sem tekið er tillit til krafna í umhverfismálum.
Að skipuleggja umferð innan hafnarsvæða í samvinnu við sveitarfélög og Vegagerðina með tilliti til umhverfisáhrifa.

5. Að lágmarka umhverfisáhrif framkvæmda

Vinna skipulega að greiningu á umhverfisáhrifum framkvæmda og undirbúa framkvæmdir með tilliti til þeirra. Stefna Faxaflóahafna sf. er:

Að ganga þannig frá málum að ráðgjafar, verktakar og samstarfsaðilar séu meðvitaðir um þær kröfur sem gerðar eru og taki að sér að uppfylla þær.
Að fylgja eftir framkvæmdum og sjá til þess að kröfur til umhverfisþátta séu uppfylltar.

6. Umgengni til fyrirmyndar

Bæta þarf stöðugt umgengi um hafnarsvæði, hafnarland, strandir, hafnarbakka og sjó. Stefna Faxaflóahafna sf. er:

Að framfylgja reglum um umgengni í höfninni, á sjó og við hafnarbakka og tryggja með sem bestum hætti að óhreinindi og mengandi efni berist ekki frá bátum og skipum innan hafnarsvæðanna.
Eiga samstarf við leigjendur og lóðarhafa um umgengi og beita áhrifum til að draga úr vinnubrögðum sem hafa óæskileg áhrif á nágrennið.
Að skipuleggja umhirðu um svæðin þ.á.m. verjast ágangi dýra, sem valda óhreinindum og óþægindum.

7. Umhverfissjónarmiðum fylgt við afnot af mannvirkjum og aðstöðu

Skipuleggja afnot af mannvirkjum m.t.t. umhverfissjónarmiða. Stefna Faxaflóahafna sf. er:

Sjá til þess að nauðsynlegar veitur séu til staðar á hafnarsvæðum, þannig að kalt vatn, heitt vatn og frárennsli séu fyrir hendi.
Að rafmagnstengingar í hafnarbökkum séu fyrir hendi eins og kostur er og séu notaðar.
Að gætt sé að því að eldsneytisafhending og móttaka úrgangsolíu sé örugg og umhverfisvæn.

Samþykkt á fundi stjórnar Faxaflóahafna sf.
þann 10. febrúar 2017

Gísli Gíslason, hafnarstjóri

 

Leiðarljós

Faxaflóahafnir leggja jafnrétti til grundvallar í öllu sínu starfi og hafna mismunun á grundvelli kyns eða annarra ómálefnalegra forsenda. Í samræmi við ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 skuldbinda Faxaflóahafnir sig til að starfa í samræmi við jafnréttisáætlun þessa. Hafnarstjóri ber ábyrgð á að stefnunni sé framfylgt og skal hún kynnt öllu starfsfólki árlega. Jafnréttisáætlun og jafnréttissjónarmið Faxaflóahafna skal endurskoða á þriggja ára fresti.

Launajafnrétti

Greidd skulu jöfn laun og jöfn kjör fyrir sömu eða jafnverðmæt störf og skulu launaákvarðanir teknar í samræmi við gildandi jafnlaunastefnu og jafnlaunakerfi Faxaflóahafna. Fyrirtækið skuldbindur sig til þess að innleiða viðmið við ákvörðun launa og annarra hlunninda sem tryggja að umbunað sé fyrir starf út frá verðmæti þess, óháð kyni eða öðrum ómálefnalegum forsendum. Tryggja skal að lagalegum kröfum sé ávallt fylgt við ákvarðanir launa.

Jafnlaunastefna Faxaflóahafna

Faxaflóahafnir sf. eru hafnarfyrirtæki og landeigandi sem leggur áherslu á að vera vinnustaður þar sem hver einstaklingur er metinn að verðleikum. Jafnlaunastefna Faxaflóahafna er órjúfanlegur hluti af launastefnu fyrirtækisins og tekur mið af staðlinum ÍST 85:2012 um jafnlaunakerfi og viðeigandi lögum og reglugerðum. Í jafnréttisstefnu fyrirtækisins felst að uppfylla skuli viðeigandi kröfur laga og reglugerða sem og framfylgja leiðsögn stjórnvalda og eigenda. Fyrirtækið skuldbindur sig til þess að innleiða viðmið við ákvörðun launa og annarra hlunninda sem tryggja að umbunað sé fyrir starf út frá verðmæti þess, óháð kyni eða öðrum ómálefnalegum forsendum.

 

Áhersluatriði varðandi launajafnrétti eru eftirfarandi:

 • Að greiða starfsfólki jöfn laun og sömu kjör fyrir sömu eða jafnverðmæt störf óháð kyni eða öðrum ómálefnalegum þáttum
 • Stuðla að umbótum sem tryggja að unnið sé markvisst að launajafnrétti
 • Hlíta lagalegum kröfum og öðrum kröfum sem snúa að launamálum starfsfólks

 

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Að bera kennsl á allan ómálefnalegan launamun kynjanna og uppræta.

Innleiðing á Jafnlaunastaðli ÍST85:2012 og jafnlaunavottun.

 

Hafnarstjóri og gæðastjóri Júní 2019, úttekt árlega eftir það.
Kerfisbundin úttekt á launamun með greiningu. Mannauðs- og launafulltrúi Árlega í maí
Stuðla að umbótum

Innri úttekt og rýni stjórnenda á jafnlaunakerfi. Stjórnendur skuldbinda sig til þess að viðhalda stöðugum umbótum, eftirliti og bregðast við óútskýrðum launamun og öðrum frávikum sem koma fram við rýni á jafnlaunakerfinu.

 

Hafnarstjóri og stjórnendur. Árlega í maí

Ráðningar og starfsþróun

Störf innan Faxaflóahafna skulu vera jafn aðgengileg öllum óháð kyni eða ómálefnalegum forsendum. Sérstaklega skal leitast við auka fjölbreytni innan starfshópa þar sem einsleitni ríkir hvað varðar kyn, aldur, uppruna og menntun þegar á við. Einnig skal gæta þess að jöfn tækifæri séu til staðar til starfsþróunar, stöðuveitingar og aðgengi að starfsmenntun.

Áhersluatriði varðandi launajafnrétti eru eftirfarandi:

 • Jafnréttissjónarmið skulu metin til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið við ráðningar og stöðuveitingar.
 • Konur jafnt sem karlar eru hvattar til að sækja um auglýst störf. Að fyrirtækið sé vinnustaður þar sem jafnræðis er gætt og möguleikar til starfsframa jafnir án tillits til kyns.
 • Að fyrirtækið sé vinnustaður þar sem allir njóta sömu tækifæra til starfsþjálfunar og fræðslu.

 

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Tryggja jafnrétti við ráðningar.

Í auglýsingum skulu störf ókyngreind og þess gætt að hafa bæði kynin í huga við gerð þeirra.

Konur og karlar eru jafnt hvött til að sækja um auglýst störf.

Hafnarstjóri, mannauðs- og launafulltrúi Alltaf þegar starf er auglýst til umsóknar.
Kynjablöndun í starfahópum

Við ráðningar skal sérstaklega taka tillit til fjölbreytni í þeim hópi sem ráðning á við um.

 

Stjórnendur Alltaf
Jöfn staða kynja í stjórnunarstöðum.

Greining skal framkvæmd á stöðu kynja í stjórnunarstöðum.

Við ráðningar skal rýna sérstaklega kynjahlutfall og hvetja jafnt bæði kyn til að sækja um störf.

 

Hafnarstjóri September 2019 og annað hvert ár þar eftir.

Jafnir möguleikar til endurmenntunar.

 

Greina skal sókn aðila í sambærilegum störfum til starfsþróunar og endurmenntunar. Kynna öllu starfsfólki og stjórnendum í stafsmannasamtölum og á starfsmannafundum möguleika á aðgengi að endurmenntun.

 

Hafnarstjóri, stjórnendur September 2019 og annað hvert ár þar eftir.
Jöfn tækifæri til starfsþróunar. Tekið skal tillit til jafnréttissjónarmiða við úthlutun verkefna og þegar veitt eru tækifæri til aukinnar ábyrgðar eða framgang í störfum. Hafnarstjóri, stjórnendur Alltaf

Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs

Störf og verkefni skulu eftir föngum skipulögð þannig að starfsmenn geti sem best samræmt vinnu og einkalíf, í samræmi við grein B.4 í Starfsmannastefnu Faxaflóahafna.

Áhersluatriði varðandi samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs eru eftirfarandi:

 • Að skapa starfsfólki aðstæður til að samræma kröfur starfs- og fjölskylduábyrgðar.
 • Mæta ólíkum aðstæðum hvers og eins eftir fremsta megni.
 • Taka fullt tillit til réttar starfsmanna um fæðingarorlof.

 

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Sveigjanleiki til að sinna fjölskylduábyrgð.

Starfsmönnum er mætt með úrræðum á borð við sveigjanlegan vinnutíma ef kostur er eða öðrum lausnum eftir því sem aðstæður leyfa.

Réttur til veikindadaga með börnum.

Hafnarstjóri, stjórnendur. Alltaf
Samræming á fjölskyldu- og atvinnulífi.

Réttur til fæðingaorlofs.

Fæðingarorlof eða aðrar barnsburðartengdar aðstæður skulu ekki hafa neikvæð áhrif á ákvarðanir um framgang í starfi.

Hafnarstjóri og stjórnendur. Alltaf
Feður jafnt sem mæður skulu hvattir til að nýta rétt sinn til fæðingarorlofs sem og veikindarétt vegna barna. Hafnarstjóri og stjórnendur. Alltaf

Einelti, fordómar og kynbundið ofbeldi

Faxaflóahafnir sf. líða ekki einelti eða ofbeldi af hvaða toga sem er af hálfu starfsmanna og hefur sett sér stefnu um eineltismál.

Allt starfsfólk á rétt á því að komið sé fram við það af virðingu. Einelti, fordómar og kynbundin eða kynferðisleg áreitni líðast ekki innan Faxaflóahafna. Starfsfólki skal með reglubundnum hætti kynnt einkenni kynferðislegrar áreitni og kynbundins ofbeldis og hvernig ber að bregðast við grun eða vissu um slík tilfelli innan vinnustaðarins í samræmi við áætlun um aðgerðir. Til hliðsjónar er reglugerð nr. 1009 frá 4. nóvember 2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Áhersluatriði varðandi einelti, ofbeldi og áreitni eru eftirfarandi:

 • Fræða starfsmenn um hvernig einelti er skilgreint, hvað í því felst og hvert birtingarformið getur verið.
 • Leggja áherslu á viðeigandi og skjót viðbrögð við mögulegum eineltismálum innan fyrirtækisins.
 • Sinna eftir samræmdum verkferlum um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi, á faglegan og óhlutdrægan hátt.
 • Gæta jafnræðis og nærgætni og ákvæða persónuverndar í öllum aðgerðum.

 

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Vinna markvisst gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundnu áreiti og kynferðislegri áreitni. Starfsfólk skal fá kynningu og fræðslu um leiðbeiningabækling vinnueftirlitsins um einelti og kynferðislega áreitni á vinnustöðum. Gæða- og markaðsstjóri. Árlega kynnt á starfsmannafundi að hausti.
Bregðast alltaf við málum sem koma upp.

Vinna samkvæmt verkferlum um einelti, ofbeldi og áreitni.

Úttekt á málum og rýni á skilvirkni.

 

Gæða- og markaðsstjóri. September 2019 og árleg úttekt.

 

Eftirfylgni og viðhald

Jafnréttisáætlunina skal endurskoða á þriggja ára fresti í samræmi við ákvæði jafnréttislaga. Stefnan skal kynnt starfsfólki Faxaflóahafna sem skulu einnig fá upplýsingar um árangur Faxaflóahafna í Jafnréttismálum.

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Tryggja að jafnréttisáætlun sé lifandi plagg og í stöðugri þróun í takt við árangur Faxaflóahafna í jafnréttismálum. Uppfæra jafnréttisáætlun í samræmi við árangur, reynslu og mælingar. Hafnarstjóri og gæða- og markaðsstjóri. Janúar 2022.

 

Samþykkt í stjórn Faxaflóahafna sf. þann 12. apríl 2019.

Gísli Gíslason, hafnarstjóri.

 

 

 

Faxaflóahafnir eru hafnarfyrirtæki og landeigandi sem leggur áherslu á öryggismál. Það felst m.a. í að vera leiðandi fyrirtæki í öryggismálum hafna og að vinna að stöðugum umbótum í því skyni að auka öryggisvitund starfsmanna, viðskiptavina og þjónustuaðila sinna og lágmarka þannig þá áhættu sem felst í starfsemi fyrirtækisins.

Faxaflóhafnir eru með starfsemi á fjórum hafnarsvæðum þar sem umsvif fyrirtækisins og fyrirtækja sem starfa á hafnarsvæðunum krefjast varúðar. Fyrirtækinu er því umhugað um að öryggi og heilsa starfsmanna þess sé höfð í öndvegi. 

Helstu áherslur Faxaflóahafna sf. í öryggismálum eru eftirfarandi:

Að tryggja öryggi, lágmarka áhættu og stuðla að slysalausum vinnustað, svo allir komi heilir heim bæði á líkama og sál.

Að tryggja virka þátttöku starfsfólks og stuðning stjórnenda varðandi öryggismál.

Að þekkja og uppfylla kröfur sem gerðar eru til starfseminnar.

Að öryggismál verði höfð að leiðarljósi við hönnun og rekstur mannvirkja og svæða.

Að reglulegt og markvisst eftirlit verði með ástandi vinnusvæða, mannvirkja, tækja og öryggisbúnaðar.

Að leggja áherslu á öryggismál við kaup á vörum og þjónustu og stuðla þannig að framförum í öryggismálum á vinnumarkaði.

Að hvetja verktaka og rekstraraðila á hafnarsvæðum til að uppfylla og fara eftir viðurkenndum öryggiskröfum.

Að innleiða vottað öryggisstjórnunarkerfi í samræmi við staðalinn ISO 45001 og vinna að stöðugum umbótum með því að draga lærdóm af og bæta úr því sem betur má fara.

 

Samþykkt á fundi stjórnar Faxaflóahafna sf.
þann 21. júní 2019

Gísli Gíslason, hafnarstjóri